07.11.1955
Sameinað þing: 10. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1405 í B-deild Alþingistíðinda. (2905)

Minning Jakobs Möllers

forseti (JörB):

Jakob Möller fyrrum sendiherra andaðist á heimili sínu hér í bæ s.l. laugardagsmorgun, 75 ára að aldri. Hann átti um alllangt skeið sæti á Alþingi, sat á 28 þingum alls, og var fjármálaráðherra hátt á fjórða ár. Ég vil nú minnast nokkrum orðum þessa þjóðkunna manns.

Jakob Ragnar Valdimar Möller fæddist á StóraBergi á Skagaströnd 12. júlí 1880. Foreldrar hans voru OIe Möller kaupmaður á Hólanesi, síðar á Blönduósi og Hjalteyri, og kona hans, Ingibjörg Gísladóttir bónda á Neðri-Mýrum í Engihlíðarhreppi Jónssonar. Jakob Möller lauk stúdentsprófi við menntaskólann í Reykjavík árið 1902, var siðan um stundarsakir við verkfræðinám í Kaupmannahöfn, stundaði nám í læknaskólanum í Reykjavík á árunum 1906–1909, en hvarf þá frá námi að öðrum störfum. Bankaritari í Landsbankanum var hann 1909–1915, ritstjóri dagblaðsins Vísis 1915–1924, eftirlitsmaður með bönkum og sparisjóðum 1924–1934, stjórnmálaritstjóri Vísis 1935–1939, framkvæmdastjóri Sjúkrasamlags Reykjavíkur 1937–1945, að undanskildu því tímabili, er hann var ráðherra, frá apríl 1939 fram í desember 1942. Sumarið 1945 var hann skipaður sendiherra Íslands í Danmörku og gegndi því embætti þar til honum skömmu eftir áramótin 1950–1951 var veitt lausn sakir aldurs. Eftir það átti hann heimili hér í Reykjavík til æviloka.

Jakob Möller lét mikið að sér kveða um landsmál, bæjarmálefni Reykjavíkur og ýmiss konar félagsstarfsemi, enda voru honum falin margvísleg trúnaðarstörf í þeim efnum. Þingmaður Reykvíkinga var hann á árunum 1920–1927 og 1931–1945. Reikningsglöggur var hann í bezta lagi og fjallaði jafnan innan þings sem utan um fjárhagsmálefni öðrum málum fremur. Í þriggja flokka ríkisstj., sem sat á árunum 1939–1942, skipaði hann sæti fjármálaráðherra, og með fjármál og dómsmál fór hann um sjö mánaða bil 1 fyrsta ráðuneyti Ólafs Thors. Af margs konar trúnaðarstörfum öðrum, sem honum voru falin á vegum ríkisins, skulu þessi talin: Í bankaráði Íslandsbanka sat hann 1922–1924, í Þingvallanefnd 1933–1934, í eftirlitsráði með opinberum rekstri 1935–1936, í eftirlitsnefnd með opinberum sjóðum 1935–1939, í stjórn byggingarsjóðs verkamanna 1935–1945, í landsbankanefnd 1936 –1945, í bankaráði Landsbankans 1944–1945. Einnig átti hann sæti í nokkrum milliþinganefndum, m.a. nefndum þeim, sem unnu að samningu launalaganna frá 1945 og almannatryggingalaganna frá 1946. Í bæjarstjórn Reykjavíkur átti hann sæti á árunum 1930–1945 og jafnframt í bæjarráði frá stofnun þess. Mun mjög hafa gætt á þeim árum tillagna hans og ráða um ákvarðanir bæjarstjórnar og framkvæmdir bæjarfélagsins, og ýmsum nefndarstörfum á þess vegum sinnti hann á þessu tímabili. Að bindindismálum vann hann um langt skeið og var allmörg ár í framkvæmdanefnd Stórstúku Íslands. Leiklistarmál lét hann sig miklu skipta, var sjálfur góður leikari á yngri árum og gerðist síðar ötull áhugamaður um byggingu íslenzks þjóðleikhúss. Í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga var hann löngum í hópi þeirra, sem gerðu stærstar kröfur.

Jakob Möller var gæddur fjölhæfum gáfum, vel máli farinn og rökfimur. Hann var óáleitinn hversdagslega, prúður og hæglátur í fasi, en þætti honum réttu máli hallað, reyndist hann fullhugi mikill og harðskeyttur baráttumaður, varðist djarflega og greiddi þung högg og stór. Hann var hjálpfús og hollráður þeim, sem til hans leituðu, og komu þeir mannkostir hans mörgum að haldi, er hann var fulltrúi Íslands erlendis.

Ég vil biðja þingheim að minnast þessa mikilhæfa manns með því að rísa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.]